Ferill 881. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2123  —  881. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Ara Trausta Guðmundssyni um heilsuspillandi efni í svefnvörum.


     1.      Telur ráðherra nauðsynlegt að láta sérfræðinga fara yfir erlendar rannsóknir sem skera úr um hvort svefnvörur, einkum rúmdýnur úr plastefnum, geti verið heilsuspillandi vegna kemískra efna (svonefndra VOC-efna) sem losna úr plastinu?
    Ráðherra tekur undir nauðsyn þess að sérfræðingar yfirfari erlendar rannsóknir varðandi þetta mál og raunar hefur það nú þegar verið gert. Þetta er efnamál sem varðar jafnframt hollustuhætti og loftgæði innandyra sérstaklega. Ráðuneytið hefur frá árinu 2017 haft til skoðunar, ásamt sérfræðingum Umhverfisstofnunar, málefni er varðar meint skaðleg efni í svefnvörum. Jafnframt hefur málið verið skoðað sem hollustuháttamál og fundað með embætti landlæknis. Umhverfisstofnun er um þessar mundir að hefja verkefni við að uppfæra leiðbeinandi kynningarefni um inniloft og mun þá hafa vinnu undangenginna ára til hliðsjónar við uppfærsluna.
    Í Finnlandi hefur verið kvartað undan einkennum sem hugsanlega megi rekja til efna frá rúmdýnum og hefur skoðun stjórnvalda þar í landi m.a. leitt eftirfarandi í ljós:
     *      Ekki hefur verið sýnt fram á að dýnurnar innihaldi formalín.
     *      Við framleiðslu á dýnum af þessu tagi eru notuð hráefni sem geta valdið einkennum á húð og í öndunarfærum og gilda takmarkanir um notkun á einu þeirra, MDI (metýl-dífenýl-díísósýanati), sbr. XVII. viðauka REACH-reglugerðarinnar. Þær takmarkanir eiga þó ekki við í þessu tilfelli.
     *      Erfitt er að rökstyðja að efnainnihaldið í dýnunum brjóti í bága við efnalöggjöfina og því ekki um það að ræða að beita þvingunarúrræðum hennar gagnvart markaðssetningu á þessum vörum á þeim grunni.
     *      Hugsanleg skýring á einkennum sem fólk finnur fyrir er að dýnunum sé pakkað inn of skömmu eftir framleiðslu þannig að leysiefni sem notuð eru við framleiðsluna lokist inni og losni úr dýnunni þegar kaupandinn tekur utan af henni. Ef þetta er vandamálið ætti að draga úr áhrifum með tímanum og hægt er að bæta loftgæðin með því að viðra dýnurnar fyrir notkun og lofta vel út úr svefnherberginu.
    Finnar hyggjast gera efnagreiningar á rúmdýnum til þess að varpa ljósi á málið og fylgist Umhverfisstofnun grannt með því hvað þær leiða í ljós. Stofnunin mun miðla nýjum upplýsingum til almennings hér á landi þegar þær liggja fyrir. Umhverfisstofnun á í norrænu og evrópsku samstarfi og fylgist á þeim vettvangi með því sem unnið er að á Norðurlöndum og í Evrópu varðandi þetta mál.

     2.      Hefur verið kannað hvort svefnvörur, svo sem koddar og rúmdýnur sem seldar eru hér á landi, innihaldi óholl efni?
    Engar sjálfstæðar kannanir opinberra stofnana hafa farið fram um mögulegt innihald óhollra efna í svefnvörum hér á landi.
    Hvað varðar loftgæði innandyra þá kemur Umhverfisstofnun að norrænu verkefni þar sem verið er að skoða hugsanlega uppsprettu efna sem hafa áhrif á loftgæði í híbýlum. Niðurstöður ættu að liggja fyrir í lok þessa árs og mun stofnunin gera þær opinberar á heimasíðu sinni.
    Jafnframt er bent á umfjöllun um inniloft á heimasíðu Umhverfisstofnunar 1 þar sem finna má góð ráð til að bæta loftgæði innandyra.
    Í upphafi þessa árs var tekin ákvörðun um að endurskoða kynningarefni Umhverfisstofnunar frá árinu 2015, Inniloft, raki og mygla í híbýlum: Leiðbeiningar fyrir almenning, 2 þannig að bætt yrði við áherslum varðandi svefnstaði og bent á umhverfisvottaðar vörur eins og þær sem bera Svansmerkið, opinbert umhverfismerki Norðurlanda. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun verður unnið að þessu verki seinni hluta árs 2020 og á árinu 2021, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Neytendur geta þá óskað eftir upplýsingum frá þeim sem markaðssetur svefnvörur hér á landi, svo sem dýnur, kodda og sængur, um það hvort í vörunum sé að finna innihaldsefni sem eru á lista Evrópusambandsins um sérlega hættuleg efni. Umhverfisstofnun leiðbeinir þar um og getur m.a. útvegað sniðmát sem hægt er að nota til að senda inn slíka beiðni um upplýsingar.

     3.      Eru til erlendir, einkum evrópskir, staðlar um svefnvörur úr plasti sem koma eiga í veg fyrir heilsuspillandi áhrif gerviefna í svefnvörum?
    Ekki eru til sérstakir staðlar sem heyra undir málefnasvið umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og varða svefnvörur. Á EES-svæðinu er samræmd efnalöggjöf en REACH-reglugerðin miðar að því að tryggja trausta heilsu- og umhverfisvernd. Í reglugerðinni er fjallað um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni og byggist hún á þeirri meginreglu að það sé á ábyrgð framleiðenda, innflytjenda og eftirnotenda að sjá til þess að efni sem þeir framleiða, setja á markað eða nota hafi ekki skaðleg áhrif á heilbrigði manna eða umhverfið. Umræddar svefnvörur eiga að uppfylla ákvæði samræmdu efnalöggjafarinnar.
    Þá er til svokölluð CE-merking sem er yfirlýsing ábyrgðaraðila um að viðkomandi vara uppfylli grunnkröfur þeirra Evrópugerða sem um hana gilda og um að við mat á samræmi hafi verið beitt þeim aðferðum sem tilteknar eru í viðkomandi tilskipunum. CE-merkingar varða þær Evrópugerðir sem krefjast CE-merkinga. 3 Slíkar merkingar á svefnvörum falla undir neytendamál sem eru á málefnasviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Neytendastofu. CE-merking er ekki eingöngu yfirlýsing um að varan uppfylli kröfur tiltekinnar tilskipunar eða reglugerðar heldur allra Evrópugerða sem um viðkomandi vöru kunna að gilda og kveða á um CE-merkingu. Í mörgum tilvikum tengjast grunnkröfur tilskipana öryggi og heilsuvernd en einnig getur verið um að ræða kröfur sem tengjast umhverfi, virkni og fleiri þáttum.
    Eins og Umhverfisstofnun bendir neytendum á geta þeir valið vörur sem bera opinber umhverfismerki. Hér á landi eru tvö opinber umhverfismerki, annars vegar Svansmerkið og hins vegar Blómið, opinbert umhverfismerki Evrópusambandsins. Vara vottuð með opinberu umhverfismerki segir til um að tiltekin vara sé betri fyrir umhverfi og heilsu en sambærileg vara sem uppfyllir ekki skilyrði til að fá slíka vottun. Um það vísast til vefs Umhverfisstofnunar.
1     ust.is/graent-samfelag/hollustuhaettir/husnaedi-og-inniloft/inniloft/
2     ust.is/graent-samfelag/hollustuhaettir/raki-og-mygla/
3     europa.eu/youreurope/business/product-requirements/labels-markings/ce-marking/index_en.htm